154. löggjafarþing — 109. fundur,  8. maí 2024.

viðbrögð stjórnvalda við framgöngu Ísraelsmanna í Rafah.

[15:27]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Síðastliðinn mánudag varaði UNICEF við skelfingarástandi færi það svo að Ísraelsher myndi ráðast á Rafah. Nú hefur það skelfingarástand raungerst. Um 1,2 milljónir manna hafa leitað skjóls í Rafah þar sem áður bjuggu um 250.000 manns. Skjóls samkvæmt fyrirmælum. 600.000 börn eru hvergi óhult. Í febrúar vöruðu Sameinuðu þjóðirnar við innrás Ísraels í Rafah enda yrði mikið mannfall óumflýjanlegt. Volker Türk, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sagði að slík innrás myndi þýða endalok mannúðaraðstoðar á svæðinu fyrir utan allan sársaukann og þjáninguna, sprengjurnar og byssukúlurnar. Endalok mannúðaraðstoðar við börn og fjölskyldur þeirra sem enn hefðu ekki fengið slíka kúlu í höfuðið. Í janúar síðastliðnum komst Alþjóðadómstóllinn í Haag að þeirri niðurstöðu að það væri ástæða til að óttast að þær aðstæður gætu myndast að þjóðarmorð yrði framið á Gaza, gaf út skipanir um að ísraelsk stjórnvöld gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að koma í veg fyrir þjóðarmorð, m.a. með því að tryggja að neyðaraðstoð og birgðir gætu komist til Gaza.

Nú ætti öllum að vera orðið ljóst, þeim sem ekki var það áður, að markmiðið var alltaf að jafna Gaza við jörðu og er það núna að takast með dyggum stuðningi margra okkar helstu bandamanna. Komið er á hreint og allir sem vilja geta séð að þjóðarmorð er ekki yfirvofandi heldur yfirstandandi. Ísraelsher hefur ráðist inn í Rafah, tekið yfir landamærin og einu leið fólks til öryggis. Sameinuðu þjóðirnar og önnur alþjóðleg hjálparsamtök hafa verið hrakin burt af svæðinu, þvert á alþjóðalög, og hafa bæði Sameinuðu þjóðirnar og aðrir lýst yfir áhyggjum af lokun landamæranna.

Í ljósi þess að Ísland er aðili að sáttmála gegn þjóðarmorði og í ljósi þess að þorri þeirra alþjóðalaga sem gilda í aðstæðum sem þessum hefur verið brotinn, hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við? Hvað hyggst hæstv. ríkisstjórn gera til að stöðva þetta annað en að skrifa skoðanapistla á Vísi? (Forseti hringir.) Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera til að koma í veg fyrir hungursneyð á Gaza? Ísland á fullveldi sitt og stöðu í alþjóðasamfélaginu undir því að alþjóðalög séu virt. Ætlar hæstv. ríkisstjórn ekki að gera neitt?